IMG 3017

Börkur NK hélt til loðnuveiða eftir nokkurt hlé í fyrrakvöld. Í gær fékk hann 740 tonn í fjórum köstum. Heimasíðan sló á þráðinn til Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra. „Hér er loðna með allri fjörunni suður af landinu en það var ekkert sérstakt stand á henni í gær. Þetta var þunnt lag og fleiri tugir mílna á lengd. Skipin voru ekki að fá neitt sérstök köst. Nú virðist loðnan hins vegar vera að hlaupa saman og menn hafa verið að fá mun betri köst í dag en í gær. Við tókum tvö köst í dag, fengum 200 tonn í því fyrra og 500 í því síðara. Nú erum við lagðir af stað í land með 1.500 tonn. Allur aflinn er kældur og gert er ráð fyrir að hann fari til manneldisvinnslu. Við verðum í Neskaupstað um klukkan tvö í nótt. Það virðist vera loðna út um allt. Norsku skipin eru að veiða á Skjálfanda og Öxarfirði  og fullyrt er að loðnu sé einnig að sjá dýpra þarna norðurfrá,“ sagði Hjörvar.

Bjarni Ólafsson AK hélt til loðnuveiða í gærkvöldi en Beitir NK er á leið á kolmunnamiðin vestur af Írlandi.