Veiðin hefur verið býsna misjöfn hjá loðnuskipunum síðustu daga. Í gærkvöldi brældi og veðrið hefur verið heldur gloppótt í morgun. Hákon EA er væntanlegur til Neskaupstaðar um hádegi í dag og mun landa um 1000 tonnum og eins er von á Birtingi NK þangað en hann hefur verið að veiða í troll á meðan flestir bátar hafa tekið nót. Birtingur þarf að koma í land vegna bilunar og mun landa þeim afla sem hann er kominn með, rúmum 900 tonnum. Börkur NK er á leið til Seyðisfjarðar með fullfermi, 2500 tonn og er væntanlegur þangað um kl. fimm síðdegis. Slegið var á þráðinn til Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra og hann spurður hvernig veiðiferðin hefði gengið fyrir sig. „Veiðiferðin hefur að flestu leyti gengið ágætlega,“ sagði Hjörvar. „Við fengum aflann í átta köstum, en þau voru misjafnlega góð. Mest fengum við 670 tonn í kasti. Við hófum veiðar í Eyjafjarðarál og enduðum í Skagafjarðardjúpi. Þetta er svo sannarlega óvenjulegt veiðisvæði á þessum árstíma, en það sem merkilegra er að loðnan á þessu svæði virðist vera á vesturleið en ekki austurleið eins og ætla mætti. Spurningin er hvort þessi loðna mun hrygna úti fyrir Norðurlandi. Annars er víða loðnu að sjá, meðal annars úti fyrir Austfjörðum, en hún er ekki komin á grunnnótaslóðir fyrir sunnan. Það er ábyggilega rétt hjá fiskifræðingunum að það er mikið af loðnu við landið, en hún hegðar sér að ýmsu leyti undarlega. Annars eru menn bara bjartsýnir og vonast eftir að vel gangi að ná þeim kvóta sem gefinn hefur verið út,“ sagði Hjörvar að lokum.