Nohmi, Kawa og Kono bragða á ljúffengum loðnuhrognum.  Ljósm. Þorgeir Baldursson

Vinnsla á loðnuhrognum gengur vel í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.  Í morgun var verið að kreista úr Beiti NK en Börkur NK og Birtingur NK eru væntanlegir til Neskaupstaðar með loðnu til kreistingar í kvöld og nótt.  Í Helguvík er verið að kreista úr Vilhelm Þorsteinssyni EA.

 

Ánægjan leynir sér ekki.  Ljósm. Þorgeir Baldursson

Í Neskaupstað eru fulltrúar japanskra kaupenda loðnuhrogna og láta þeir vel af dvöl sinni þar.  Katsjui Kawaharata sem venjulega er nefndur Kawa er einn þeirra Japana sem fylgjast með hrognavinnslunni í Neskaupstað.  Kawa er hagvanur á Íslandi og er þetta 27. loðnuvertíðin sem hann fylgist með á landinu.  Kawa segist hafa mikinn áhuga á að heimsækja Ísland að sumri til en það hefur hann aldrei gert.  Auk þess að fylgjast með hrognaframleiðslu í Neskaupstað hefur Kawa áður dvalið í Vestmannaeyjum, Grindavík, Sandgerði, Reykjavík, Helguvík, Seyðisfirði og Eskifirði í þeim tilgangi að fylgjast með loðnufrystingu og framleiðslu loðnuhrogna.

Kawa líkar afar vel að dvelja á Íslandi og segist ekki óvanur snjó og kulda en hann kemur frá borginni Kushido á eyjunni Hokkaido.

Undanfarnar átta loðnuvertíðir hefur Kawa verið í Neskaupstað og fylgst með framleiðslustarfseminni.  Hann segir að Síldarvinnslan sé þekkt fyrir gæðaframleiðslu og japönsk fyrirtæki sækist eftir viðskiptum við hana.  „Hjá Síldarvinnslunni er vel staðið að öllu og þar kunna menn vel til verka.  Framleiðslan er vel skipulögð og haldið fast utan um alla þætti, allt frá veiðum til lokastigs vinnslunnar.  Við, sem erum fulltrúar japanskra kaupenda í Neskaupstað, erum afar ánægðir með þá vöru sem þar er framleidd og við vitum að neytendur í Japan verða ekki sviknir af henni“.