Börkur NK á landleið á síðustu loðnuvertíð

Í gær ákvað atvinnuvegaráðherra að auka loðnukvótann um 120 þúsund tonn til viðbótar við áður útgefnar aflaheimildir. Þessi ákvörðun er tekin á grundvelli tillagna Hafrannsóknastofnunar í kjölfar niðurstaðna loðnuleitar rannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar á tímabilinu 21. janúar til 7. febrúar. Með þessari viðbót er leyfilegur hámarksafli á vertíðinni 570 þúsund tonn að meðtöldum þeim afla sem erlendum skipum er heimilt að veiða. Það bendir því allt til þess að um verði að ræða hörkuvertíð ekki síst í ljósi þess að afurðaverð hefur sjaldan eða aldrei verið hærra.

 

Fyrir Síldarvinnsluna skiptir þessi aukning að sjálfsögðu miklu máli en hún felur í sér að kvóti fyrirtækisins mun aukast um tæplega 20 þúsund tonn. Gera má ráð fyrir að heildarkvóti Síldarvinnslunnar á vertíðinni verði rúmlega 70 þúsund tonn og er ljóst að allir þurfa að halda vel á spilunum til þess að hann náist og hann verði nýttur sem best.