Börkur NK. Ljósm. Hákon Ernuson Börkur NK. Ljósm. Hákon ErnusonNú er farið að sjá fyrir endann á yfirstandandi loðnuvertíð og í tilefni af því hafði heimasíðan samband við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra á Berki NK og spurði hvað hann vildi segja um vertíðina. Börkur NK er væntanlegur til Neskaupstaðar með fullfermi af hrognaloðnu í dag og er þetta fyrsti túrinn á vertíðinni sem Hjörvar er ekki með skipið. Hjörvar er afar ánægður með vertíðina og segir að loðnusjómenn séu almennt alsælir með hana. „Á vertíðinni hefur verið mikið af loðnu og einstök veðurblíða og er óvenjulegt að veður haldist svona gott á þessum árstíma. Alla vertíðina hafa menn helst þurft að passa sig á að fá ekki of mikinn afla í kasti. Það hefur gengið misjafnlega og hafa mörg skip lent í veiðarfæratjóni. Segja má að þetta sé lúxusvandamál og mörg dæmi eru um gríðarstór köst á vertíðinni, jafnvel stærri köst en áður hefur heyrst um. Elstu menn í flotanum telja þessa vertíð vera á borð við þær bestu hvað loðnumagnið varðar,“ sagði Hjörvar.

Þegar Hjörvar er spurður að því hvort ekki hafi komið á óvart hve mikið hafi verið af loðnu segir hann að ýmsar fréttir hafi bent til mikillar loðnugengdar þó fræðimenn hafi verið svartsýnir. „Ég held að fræðimennirnir viti afskaplega lítið um loðnuna og auðvitað háir það þeim hve litlu fjármagni er varið til rannsókna. Við höfðum heyrt frá togurum að mjög mikið væri af loðnu sunnarlega í Grænlandskantinum en þar var ekkert leitað. Það var einungis leitað norðar. Og blessaðir fræðimennirnir tala ávallt þannig að þegar þeir hafa farið yfir takmarkað hafsvæði þá hafi þeir séð alla fiska í sjónum. Þetta er ekki svona. Stundum sést mikið af fiski á tilteknu svæði en næsta dag sést ekki neitt. Það þýðir ekki að allur fiskurinn sem sást þarna í gær sé dauður. Menn verða að taka rannsóknir af þessu tagi til alvarlegrar endurskoðunar og það er dapurlegt að útgerðin hafi þurft að kosta rannsóknaleiðangurinn í febrúar sem leiddi til þeirrar glæsivertíðar sem nú er langt komin,“ sagði Hjörvar að lokum.