Loðnuveiðar áður en núverandi bræla skall á. Ljósm. Örn Rósmann KristjánssonLoðnuveiðar áður en núverandi bræla skall á. Ljósm. Örn Rósmann KristjánssonMikil áhersla er lögð á vinnslu hrogna úr förmum loðnuskipanna sem landa nú hvert af öðru. Í Neskaupstað er lokið við að vinna hrogn úr farmi Bjarna Ólafssonar AK í gærkvöldi og þá hófst vinnsla úr loðnu úr Berki NK. Síðan bíða Beitir NK og Birtingur NK löndunar í Neskaupstað og Hákon EA er að landa frystri loðnu. Tiltölulega hátt hlutfall þeirrar loðnu sem veiðst hefur í grennd við Vestmannaeyjar er karlkyns en hlutfall kvenloðnu er hærra í þeim afla sem fengist hefur á Faxaflóa. Færeyska skipið Finnur fríði landaði 200 tonnum í hrognavinnslu í Helguvík í nótt og fékkst sú loðna í Faxaflóa. Eins er Polar Amaroq væntanlegur til Neskaupstaðar í dag með 700 tonn sem fengust í flóanum.
 
Veðurútlit fyrir sunnan land og vestan er ekki gott næstu daga og því munu skipin sem eru að landa fyrir austan sigla norður fyrir land að löndun lokinni. Munu þau freista þess að finna veiðanlega loðnu þar. Bjarni Ólafsson er þegar lagður af stað og verður fróðlegt að frétta hvort hann rekst á loðnu norðurfrá.