Loðnuskipin fengu góðan afla úti fyrir Vestfjörðum í gær. Vilhelm Þorsteinsson EA er að landa 1200 tonnum í Helguvík og síðan mun Polar Amaroq landa þar um 2000 tonnum. Hinn nýi Börkur er á austurleið og mun koma til Neskaupstaðar um klukkan 9 í kvöld með 2000 tonn. Er hér um að ræða fyrstu veiðiferð skipsins eftir að Síldarvinnslan festi kaup á því. Í kjölfar Barkar mun Birtingur koma til Neskaupstaðar í nótt og Beitir í fyrramálið en bæði skipin eru með um 1500 tonna afla.

Nokkur áta virðist vera í loðnunni sem nú veiðist og vafasamt hvort unnt verður að vinna hana til manneldis í miklum mæli.

Myndirnar sem fylgja þessari frétt tók Þorgeir Baldursson á loðnumiðunum úti fyrir Vestfjörðum í gær en Þorgeir er um borð í Berki.