Loðnuveiðar úti fyrir Suðurlandi hófust í fyrradag eftir langvarandi brælu. Bjarni Ólafsson AK er kominn til Neskaupstaðar og er verið að landa úr honum tæplega 1.000 tonnum í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar.
Gott veður var á loðnumiðunum syðra í gær og góð veiði. Vilhelm Þorsteinsson EA er á leið til Neskaupstaðar með 1.790 tonn og Börkur NK kastaði einu sinni og fékk 680 tonn. Börkur hélt áfram veiðum í morgun, fékk 260 tonn í fyrsta kasti og var að draga þegar rætt var við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra. Hjörvar segir að hrognafylling loðnunnar sé 21-22%. Beitir NK er á leiðinni á miðin.
Gísli Runólfsson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni, segir að nokkuð sé af loðnu við Vestmannaeyjar og skipin hafi verið að fá ágæt köst. „Við byrjuðum að veiða í fyrradag eftir bræluna. Köstuðum þá tvisvar og fengum 500 tonn. Síðan köstuðum við einu sinni í gærmorgun 10 mílur norðvestur af Eyjum og fengum hátt í 500 tonn í því kasti. Það er verið að frysta loðnuna sem við komum með á Japan,“ sagði Gísli.