Lodna 2014Síldarvinnsluskipin Börkur og Beitir héldu til loðnuveiða frá Neskaupstað á laugardag. Heimasíðan hafði samband um kl 10.00 í morgun og fékk fréttir. Sigurður V. Jóhannesson stýrimaður á Beiti sagði að fyrsta holið hefði komið mjög á óvart. „Þetta byrjaði ansi vel. Við toguðum í sex tíma í gær og fengum 650 tonn. Það er býsna gott. Síðan toguðum við í eina tíu tíma í nótt og fengum 150 tonn,“ sagði Sigurður.
 
Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri á Berki sagði að þeir væru einnig búnir að taka tvö hol. „Við fengum rúm 300 tonn í því fyrra og um 200 í því síðara. Togað var fyrst í fimm tíma og síðan í átta. Það var ekki mikið að sjá í myrkrinu í nótt en núna er eitthvað að sjá. Vissulega er þetta engin mokveiði hjá okkur en þetta er byrjað og það er gott,“ sagði Hálfdan.
 
Bæði skipin voru að veiðum um 55 mílur norðaustur úr Langanesi og þar voru sjö skip að veiðum á svæðinu. Loðnan sem fæst er hin fínasta en í henni er einhver áta. Í nótt var leiðindaveður á miðunum en það skánaði mikið með morgninum.