Í gær voru litlar fréttir af loðnuveiðum, allavega framan af degi. Hluti flotans var við veiðar á Faxaflóa og fékk einn og einn bátur einhvern afla og þá aðallega svartan karl. Síðan voru nokkrir bátar á Breiðafirðinum og fengu þar eitthvað af hryngdri kerlingu. Horfurnar voru dapurlegar og heldur þungt yfir mönnum.
Í þessari stöðu ákvað Geir Zoëga skipstjóri á Polar Amaroq að kanna stöðuna norður með Vestfjörðum og skoða jafnvel hvað hæft væri í fréttum á loðnu á Húnaflóa. Polar Amaroq átti eftir að veiða yfir 5000 tonn á vertíðinni og því mikilvægt að veiðanleg loðna kæmi í leitirnar.
Þegar Polar Amaroq var kominn út af Ísafjarðardjúpi fannst loðna. Þarna voru góðar torfur sem stóðu að vísu djúpt en á fallaskiptunum kom loðnan upp og náðu Polarmenn einu 350 tonna kasti. Þarna reyndist vera um ágætis loðnu að ræða og að sögn Geirs virðist hrognfyllingin vera þannig að loðnan gæti vel hentað til Japansfrystingar. Þessar veiðifréttir bárust um flotann og í morgun var hann allur kominn á veiðislóðina.
Heimasíðan hafði samband við Geir núna upp úr hádeginu og var hann brattur og hress: „Við erum núna um 12 mílur út af Galtarvita og flotinn er allur hér. Ég horfi á eina 12 báta út um brúargluggann. Sennilegt er að loðnan komi upp á fallaskiptunum eins og hún gerði í gær og lóðningar á svæðinu eru verulegar. Við vorum að kasta eins og fleiri bátar og ég horfi á nýja Börk vera að snurpa hérna rétt hjá. Þetta er gríðarlega spennandi og það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr þessu. Það er allavega bjartara yfir mönnum en verið hefur síðustu dagana.“