Í morgun var Börkur NK á loðnumiðunum út af Snæfellsnesi og var hann að taka síðasta kast Síldarvinnsluskipanna á þessari vertíð. Nú er verið að vinna hrogn úr loðnu sem Vilhelm Þorsteinsson EA kom með í nótt til Neskaupstaðar. Afli hans er um 950 tonn. Beitir NK er á austurleið með 2000 tonn og er hann væntanlegur um miðnætti. Í kjölfar hans kemur síðan Bjarni Ólafsson AK með um 700 tonn. Afli Barkar er um 1400 tonn og verður sá farmur lokafarmurinn á þessari vertíð hjá Síldarvinnslunni.
Hrognavinnslan í fiskiðjuverinu í Neskaupstað hefur gengið vel og skiptir hún miklu máli hvað varðar útkomu vertíðarinnar. Annars má segja að vertíðin hafi gengið þokkalega þrátt fyrir lítinn kvóta en þar skiptir sá afli sem norsk skip lönduðu í Neskaupstað snemma á vertíðinni afar miklu máli.