Börkur NK með góðan loðnutúr. Ljósm: Hákon Ernuson
Í gær var góð loðnuveiði á miðunum norður af Melrakkasléttu og bendir allt til að loðnuvertíð sé hafin fyrir alvöru. Það brældi hins vegar seinni part dags og í gærkvöldi og nótt var ekkert veiðiveður. Börkur NK kom til Neskaupstaðar með rúm 2000 tonn upp úr hádegi. Polar Amaroq er síðan væntanlegur síðdegis með 1800 tonn. Gert er ráð fyrir að hluti afla skipanna fari til vinnslu í fiskiðjuverinu.
 
Sturla Þórðarson skipstjóri á Berki sagði í viðtali við tíðindamann heimasíðunnar að töluvert væri af loðnu á veiðislóðinni. „Við fengum aflann í átta holum og vorum að fá frá 160 tonnum og upp í 500 tonn í holi. Það voru öll skip á miðunum að fá góðan afla en veður hefur truflað veiðarnar töluvert. Á landleiðinni fengum við brjálað veður. Ég held að vertíðin líti bara þokkalega út,“ sagði Sturla hress í bragði.