Barði NK landaði loðnu í Neskaupstað í gær. Ljósm. Smári Geirsson

Barði NK kom með rúmlega 1.000 tonn af loðnu til Neskaupstaðar í gærmorgun og grænlenska skipið Polar Ammassak mun koma með 620 tonn í dag. Loðnan er öll unnin í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar.

Þorkell Pétursson, skipstjóri á Barða, segir að aflinn hafi fengist í sjö holum norðaustur úr Kolbeinsey. Mest hafi fengist yfir daginn en nánast engin veiði sé á nóttinni.

Geir Zoёga, skipstjóri á Polar Ammassak, segir að loðnan hafi fengist norður af Melrakkasléttu. „Við vorum eina þrjá daga á veiðum. Það var dálítið að sjá en þarna voru hitaskil og þegar loðnan gekk í hlýrri sjó dreifði hún sér og varð nánast óveiðanleg. Annars líst mér afar vel á loðnuvertíðina. Það er eðlilegt að loðna sé þarna á ferðinni á þessum tíma og miðað við mælingu í fyrra og ungloðnumælingu er ekki hægt að vera annað en bjartsýnn. Undir lokin var veður farið að hamla veiðum og við erum á landleið í bölvaðri brælu. Nú er jólafrí framundan og það er gott til þess að hugsa,“ segir Geir.

Grænlenska skipið Polar Amaroq kom með 1.800 tonn af síld til Seyðisfjarðar um miðnætti í nótt. Síldin fékkst í Smugunni. Eggert Ólafur Einarsson verksmiðjustjóri segir að það sé afar kærkomið að fá þennan afla, setja í gang og láta verksmiðjuna snúast. „Það eru um sex mánuðir síðan síðast var framleitt í verksmiðjunni og að undanförnu hefur verið unnið að margvíslegum viðhaldsverkefnum. Það er því gott að fá þetta hráefni og undirbúa kolmunnatörnina sem hefst eftir áramótin,“ segir Eggert.