Loðnuskipið Vendla kemur til hafnar í gær. Fjær er færeyska skipið Fagraberg að landa kolmunna. Ljósm. Smári Geirsson
Tormod Haugland, skipstjóri á Vendla. Ljósm. Smári Geirsson

Norska skipið Vendla kom til Neskaupstaðar skömmu fyrir hádegi í gær með 750 tonn af loðnu. Vinnsla hófst strax í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Heimasíðan ræddi við Tormod Haugland, skipstjóra á Vendla, og spurði fyrst hvar loðnan hefði fengist. „Við fengum þessa loðnu í tveimur köstum á Tromsøbanken, norður af Tromsø. Þarna var töluvert af loðnu að sjá og er það í samræmi við það sem reiknað var með. Okkur finnst kvótinn lítill. Kvóti Vendla er til dæmis einungis 1065 tonn og við erum búnir með kvótann. Við lönduðum áður 330 tonnum í Værøy. Menn eru uppteknir af því að skilja loðnuna eftir fyrir þorskinn og þess vegna er kvótinn ekki meiri en raun ber vitni. Nú lítur út fyrir að loðnustofninn á þessum slóðum sé að styrkjast verulega eftir að hafa verið lengi í lægð. Vonandi hefur það þau áhrif að kvótinn verði meiri á komandi tímum. Siglingin frá veiðisvæðinu til Neskaupstaðar var um 800 mílur. Nú er norski báturinn Manon væntanlegur til Neskaupstaðar á sunnudag með 1300 tonn af loðnu og hann var að veiðum austar en við þannig að hann mun sigla enn lengri vegalengd. Við reiknum með að taka einn kolmunnatúr núna eftir löndun en síðan tökum við þátt í mælingum á kolmunnastofninum á vegum norsku Hafrannsóknastofnunarinnar,“ segir Tormod Haugland.

Oddur Einarsson yfirverkstjóri og Katarzyna Sylvia Jagielska verkstjóri að gæðameta loðnuna.
Ljósm. Geir Sigurpáll Hlöðversson

Geir Sigurpáll Hlöðversson, rekstrarstjóri fiskiðjuversins, segir að það sé virkilegt gleðiefni að fá loðnu til vinnslu. „Það var gaman að upplifa stemmninguna þegar loðnan kom. Það voru allir glaðir. Loðnan er virkilega góð til vinnslu og virðist hafa þolað hina löngu siglingu hingað ágætlega. Þessi loðna er aðeins smærri en loðnan sem veiðist hér við land. Við erum að framleiða tvo flokka, annars vegar hrygnu og hins vegar hæng. Hrognafyllingin er um 16%. Von er á norska bátnum Manon með 1.300 tonn á sunnudag þannig að loðnustemmningin mun ríkja eitthvað áfram,“ segir Geir Sigurpáll.

Það er gleðiefni að loðnuvinnsla skuli vera hafin. Ljósm. Geir Sigurpáll Hlöðversson