Loðnuskipin Börkur NK og Bjarni Ólafsson AK köstuðu í nótt og í morgun með nánast engum árangri. Heimasíðan ræddi við Leif Þormóðsson, stýrimann á Berki, og sagði hann heldur fátæklegar fréttir af loðnuleitinni. „Við köstuðum á Halanum í nótt en fengum ekkert. Loðnan kom ekkert upp fyrir 80 faðmana. Það sáust loðnur í nótinni og þær virtust vera smáar. Nú erum við að sigla í norðvestur í átt að Bjarna Ólafssyni sem kastaði í morgun,“ sagði Leifur.

Einnig var rætt við Runólf Runólfsson, skipstjóra á Bjarna Ólafssyni, og hann spurður um hvað hefði komið út úr kastinu hjá þeim. „Við köstuðum 60 mílur norður af Horni og fengum 30 tonn af smáloðnu. Það hefur verið talsvert að sjá og við köstuðum á þokkalegasta lóð en þetta kemur afar illa upp því það er svo rosalega tunglbjart. Nú er ætlunin að leita austur með kantinum,“ sagði Runólfur.