Beitir NK landaði loðnu í Noregi. Ljósm. Þorgeir Baldursson

Skip Síldarvinnslunnar og tengdra fyrirtækja landa loðnu víða þessa dagana. Má nefna að Barði NK landaði á Akranesi og mun væntanlega verða aftur á miðunum í dag. Polar Amaroq landaði í Vestmannaeyjum á laugardag og Polar Ammasak hélt til Færeyja með fullfermi. Börkur NK kom til Neskaupstaðar í gær með 2655 tonn og fór hluti af þeim afla til manneldisvinnslu. Lengst allra sigldi þó Beitir NK með afla, en hann landaði 3061 tonni í Vedde í nágrenni Álasunds í Noregi. Að sögn Herberts Jónssonar stýrimanns gekk vel að landa úr skipinu og lagði það af stað á miðin á ný klukkan fimm í morgun. Getur Beitir væntanlega hafið veiðar á miðvikudagsmorgun.

Fjögur norsk loðnuskip eru komin á miðin norðaustur af landinu en hafa lítið fengið enn sem komið er. Norsku skipin veiða í nót og hefur loðnan staðið of djúpt til að unnt sé að ná henni í nótina.