Aðfaranótt mánudags hófst loðnufrysting á ný í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað en þar hefur ekki verið fryst síðustu tvær vikur eða svo. Heimasíðan ræddi við Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóra og spurði nánar út í frystinguna. „Það var Bjarni Ólafsson AK sem kom aðfaranótt mánudags með 1.640 tonn og þar af 1.000 tonn af frystingarhæfri loðnu. Vinnsla úr honum hófst strax í fiskiðjuverinu. Þetta var hin þokkalegasta loðna. Hún var heldur stærri en sú sem áður hefur borist að landi á vertíðinni og einnig átuminni. Nú erum við fyrst og fremst að frysta kallinn, eða stærstu loðnuna. Fyrir um það bil tveimur vikum frystum við ein 1.600 tonn en síðan hefur ekkert verið fryst þar til nú bæði vegna ótíðar og átu í loðnunni. Núna er góð veiði og ég geri ráð fyrir áframhaldandi frystingu. Um eða upp úr 10. febrúar má svo gera ráð fyrir að frysting hefjist á Asíumarkað og þá skiptir afar miklu máli að hráefni verði nægt og vinnslan gangi vel,“ segir Jón Gunnar.
Lokið var við að frysta úr Bjarna Ólafssyni sl. nótt en þá var Börkur kominn með 2.850 tonn og þar af 1.000 tonn til frystingar. Hófst vinnsla úr honum þá þegar.