Tvö síðustu ár hafa verið loðnuleysisár og loðnunnar er sárt saknað. Ný aflaregla í loðnu hefur verið í gildi í fimm ár og eru menn fjarri því að vera sáttir við hana. Reglan hefur meðal annars skilað tveimur tvö hundruð þúsund tonna vertíðum sem teljast smáar í sniðum og tveimur loðnuleysisárum eins og fyrr greinir. Nú er vinna í gangi við endurskoðun aflareglunnar og bíða menn spenntir eftir niðurstöðu þeirrar vinnu. En hver er saga loðnunnar og hvenær hóf hún að skipta máli í íslenskum sjávarútvegi ? 

Sagan segir að fyrsti maðurinn til að hagnýta loðnuna hafi verið Jakob Jakobsson skipstjóri og útgerðarmaður frá Strönd á Norðfirði. Jakob var einn þeirra Austfirðinga sem sóttu vetrarvertíðir til Hornafjarðar og mun hann hafa verið þar með bát sinn, Auðbjörgu, á 37 vertíðum á árunum 1917 til 1954. Mun Jakob hafa byrjað að nota loðnu til beitu fyrir árið 1920. Fyrst mun loðnan hafa verið tínd af fjörum en þegar útgerðarmenn gerðu sér orðið grein fyrir gildi hennar komu þeir sér upp litlum fyrirdráttarnótum sem hún var veidd í við háflæðið. Þegar Austfirðingar hófu að stunda veiðar á vetrarvertíðum frá Sandgerði hófu þeir einnig þar að nýta loðnu sem beitu. Mun Ölver Guðmundsson, útgerðarmaður í Neskaupstað, fyrstur hafa veitt þar loðnu um 1937. Til að byrja með var loðnan veidd í nokkurs konar háf sem dreginn var í sjónum. Á vertíðinni 1938 tók Ölver vélbátinn Frey NK á leigu á meðan loðnan gekk fyrir Reykjanes í þeim tilgangi að láta bátinn veiða loðnuna í litla herpinót. Gengu veiðarnar vel og var loðnan meðal annars seld ýmsum útgerðarmönnum sem nýttu hana sem beitu. Næstu árin voru þessar veiðar við Reykjanes endurteknar af Norðfjarðarbátum.  

Loðnuveiðar eins og við þekkjum þær, það eru hringnótaveiðar í stórum stíl, eiga sér ekki langa sögu á Íslandi. Ef undan eru skildar tilraunaveiðar, sem efnt var til seint á fimmta áratug tuttugustu aldarinnar, má segja að loðnuveiðar með þessum hætti hafi fyrst hafist veturinn 1963. Veiðarnar fóru hægt af stað og fyrstu árin var einungis veitt úti fyrir suður- og vesturströnd landsins fyrir og um hrygningartímann. 

Fyrsti Norðfjarðarbáturinn hóf loðnuveiðar með hringnót árið 1964. Það var Gullfaxi, 180 tonna bátur. Nótin sem notuð var við veiðarnar var 117 faðma löng og 20 faðma djúp. Gengu veiðarnar vel en helsta vandamálið var að fá einhverja fiskimjölsverksmiðju til að taka við aflanum. 

Árið 1966 hófu Síldarvinnsluskipin, Barði og Bjartur, loðnuveiðar og næstu árin fjölgaði Norðfjarðarskipum sem lögðu stund á veiðarnar. Veturinn 1969 héldu til dæmis fimm skip frá Neskaupstað til loðnuveiða.

Stóri-Börkur kemur til hafnar í Neskaupstað með fullfermi af loðnu veturinn 1989. Ljósm. Haraldur Bjarnason

Loðna barst ekki til vinnslu í Neskaupstað fyrr en veturinn 1968. Hinn 21. febrúar það ár kom Börkur með fullfermi til heimahafnar og þóttu það tímamót. Á þessari loðnuvertíð bárust átta þúsund lestir af loðnu til verksmiðju Síldarvinnslunnar og kom öll loðnan af miðunum sunnan við landið. 

Eftir að móttaka loðnu hófst á Austfjörðum hófu Austfirðingar að velta því fyrir sér hvort ekki væri unnt að auka hlutdeild austfirsku fiskimjölsverksmiðjanna í landaðri loðnu. Töldu menn mögulegt að hefja loðnuveiðar fyrr og veiða hana á meðan hún gengi suður með Austfjörðum. Þá vaknaði sú spurning hvort loðnan gæti, allavega að hluta til, komið í stað síldarinnar sem Austfirðingar höfðu treyst á en hafði nú brugðist þeim.

Fyrst var reynt að stunda loðnuveiðar úti fyrir Austfjörðum í ársbyrjun 1970 en vegna óhagstæðs veðurs og þess hve loðnan stóð djúpt varð árangur slakur. Segja má að fyrst hafi náðst góður árangur í loðnuveiðum austan og norðaustan af landinu árið 1972 og við það jókst loðnuafli mikið og Austfirðir urðu miðstöð veiðanna fyrri hluta vertíðarinnar. Til þess að tryggja vinnslustöðvum Síldarvinnslunnar hráefni þegar loðnuveiðar fóru fram á fjarlægum miðum festi fyrirtækið kaup á stóru og burðarmiklu skipi sem hentaði til að sigla með stóra farma langan veg. Þetta skip var Börkur, sem Norðfirðingar nefndu gjarnan Stóra-Börk. Fyrir utan loðnuveiðarnar var Stóra-Berki ætlað að veiða kolmunna.  

Vinnsla á loðnuhrognum í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar veturinn 2016. Ljósm. Hákon Ernuson

Segja má að framan af hafi öll loðnan sem veiddist farið til vinnslu á mjöli og lýsi en það breyttist með tímanum. Framleiðsla á frystri loðnu til útflutnings hófst til dæmis hjá Síldarvinnslunni árið 1971 og framleiðsla á frystum loðnuhrognum hófst árið 1978. Með árunum jókst sífellt áhersla á menneldisvinnsluna og jafnframt var fjárfest í skipum sem gátu komið með gæðahráefni að landi. 

Í upphafi voru loðnuveiðarnar frjálsar en kvóti var fyrst settur á þær árið 1980. Veiðarnar hafa verið mjög breytilegar frá ári til árs og reyndar hafa veiðarnar verið stöðvaðar oftar en einu sinni vegna ótta um að loðnustofninn væri í hættu. Í mörg ár hefur verið heimilað að veiða um og yfir eina milljón tonna en síðan hafa komið ár þar sem veiðar hafa verið sáralitlar eða nánast engar. Loðnuveiðarnar hafa skipt mörg sjávarútvegsfyrirtæki miklu máli og má nefna að á seinni árum var litið svo á að um fjórðungur af veltu Síldarvinnslunnar tengdist loðnuveiði og –vinnslu. Til að sjá hinar miklu sveiflur í loðnuveiðunum hin síðari ár fylgir hér mynd sem sýnir móttöku á loðnu hjá Síldarvinnslunni frá árinu 2003.

Eftir tvö loðnuleysisár í röð er eðlilegt að spurningar vakni. Er loðnustofninn orðinn svona veikur? Hefur loðnan breytt göngumynstri sínu ? Mun endurskoðun nýju aflareglunnar breyta einhverju ?  Hefðbundinn haustleiðangur til mælinga á stærð loðnustofnsins er framundan og eru bundnar vonir við að hann skili jákvæðri niðurstöðu. Menn halda fast í vonina.

Á línuritinu sést hve vinnsla loðnu hefur verið breytileg hjá Síldarvinnslunni frá ári til árs. Engin loðna hefur verið veidd tvö síðustu ár