Polar Amaroq að landa á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar Bogason

Grænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq kom til Seyðisfjarðar í gær með fullfermi af kolmunna eða 2.100 tonn. Í samtali við Geir Zoёga skipstjóra kom fram að veiðin á gráa svæðinu suður af Færeyjum hefði gengið vel. „Þetta gekk býsna vel hjá okkur og við fengum aflann í sex holum. Aflinn í hverju holi var frá 170 tonnum og upp í tæp 700 tonn. Það var verst við túrinn að veðrið var hundleiðinlegt. Þetta var sannkallaður brælutúr. Nú er kominn loðnuspenningur í menn og við munum halda til loðnuveiða að löndun lokinni. Mér fannst við fá jákvæðar fréttir í gær frá loðnuleitarskipunum sem nú eru að mæla og spenningurinn hefur heldur betur gert vart við sig. Ég er bjartsýnn á loðnuvertíðina og ég held að sé skynsamlegt að fara að hyggja að loðnunni, „ segir Geir.