Börkur NK. Ljósm. Smári Geirsson

Heimasíðan ræddi við Hjörvar Hjálmarsson, skipstjóra á Berki NK, í morgun en skipið var þá statt djúpt vestur á Hala í loðnuleit. Börkur hefur leitað loðnu ásamt Bjarna Ólafssyni AK síðustu daga. Hjörvar sagði að á Halanum yrðu þeir varir við loðnutorfur. „Við erum búnir að leita á Kolbeinseyjarhryggnum, norðan við Strandagrunn og Þverálshorn og erum núna djúpt vestur á Halanum. Það er fyrst núna sem við sjáum loðnutorfur en þá bregður svo við að það er leiðindaveður. Hérna er bölvuð bræla, 25-28 metrar og sjórinn mínus ein gráða. Það á hins vegar að lægja í kvöld og þá verður einhver friður í sólarhring eða svo samkvæmt spá. Togarafréttir greina frá því að vart verði við meira líf á svæðinu hérna og fiskur sem fæst er fullur af loðnu. Það er semsagt loðna hér á ferðinni en það er fyrst núna sem við verðum varir við einhverjar alvörulóðningar. Menn verða að vera þolinmóðir í loðnuleitinni. Þetta á allt eftir að koma og það er mikilvægt að fylgjast vel með. Loðnutorfurnar sem við sjáum hér standa djúpt en við sjáum til hvað gerist þegar veðrið batnar,“ segir Hjörvar.