Loðnuveiðar ganga afar vel þessa dagana og í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað er unnið dag og nótt. Upp úr hádegi í dag verður lokið við að landa 1.740 tonnum úr Vilhelm Þorsteinssyni EA en afli skipsins hefur hentað afar vel til manneldisvinnslunnar. Um hádegisbil mun síðan Beitir NK koma til hafnar með 1.480 tonn. Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, segir að veiðin hafi gengið vel. „Það var algert blíðuveður og það tók ekki langan tíma að fá aflann. Við tókum þrjú köst á Meðallandsbugtinni um 5-8 sjómílur vestur af Ingólfshöfða. Í fyrsta kastinu fengust 860 tonn, 180 tonn fengust í öðru og 440 í því þriðja. Við köstum fyrst klukkan átta í gærmorgun og vorum lagðir af stað í land klukkan tvö eftir hádegi. Það var almennt góð veiði þarna og mikið að sjá. Þetta er allt öðruvísi en í fyrra. Nú er betra að eiga við þetta, lóðningarnar eru þéttari og eru að skila vel. Þá ber að geta þess að við höfum séð góðar lóðningar út af Austfjörðum á landleiðinni,“ segir Tómas.
Það voru fleiri skip en Beitir sem fengu myndarleg köst. Grænlenska skipið Polar Amaroq fékk til dæmis 1.100 tonna kast sl. nótt og hélt með þann afla til Fuglafjarðar í Færeyjum.
Loðnan sem veiðist núna þykir afar falleg. Hrognafyllingin er rúm 16% og engin áta í henni. Það getur ekki verið mikið betra.