Ísfisktogarinn Gullver NS kom til hafnar á Seyðsifirði í gærmorgun að lokinni vel heppnaðri veiðiferð. Aflinn var 107 tonn, að mestu ufsi og þorskur. Veitt var á hefðbundnum miðum skipsins; ufsinn fékkst í Berufjarðarál en þorskurinn á Fætinum og í Litla dýpi. Stýrimaður á Gullver í þessari veiðiferð var Jónas Jónsson. Jónas lét af störfum sem fastur skipstjóri á Gullver um síðustu áramót en hefur farið þrjár veiðiferðir sem stýrimaður í afleysingum á þessu ári. Heimasíðan tók Jónas tali og spurði hann fyrst um upphaf sjómannsferilsins. „Ég fór fyrst á sjóinn 15 ára gamall árið 1971. Þá réðst ég á þáverandi Gullver, sem var austur-þýskur síldarbátur 264 tonn að stærð. Þarna um sumarið vorum við á fiskitrolli enda síldarævintýrinu lokið fyrir nokkru. Þessi bátur hentaði engan veginn til trollveiða en það var hins vegar gott að kynnast því hvernig þessar veiðar fóru fram á svona bátum. Eftir þetta má segja að ég hafi verið á sjónum ef undan eru skildir fimm vetur í skóla, þar af þrír í Stýrimannaskólanum. Ég var um tíma á skólaárunum á togaranum Ottó Wathne frá Seyðisfirði og eins á Rauðanúp frá Raufarhöfn,“ segir Jónas.
Að loknu námi í Stýrimannaskólanum hélt Jónas heim til Seyðisfjarðar. „Fyrst réðst ég sem stýrimaður á togarann Gullberg en þegar núverandi Gullver kom nýr árið 1983 fór ég á hann og þar um borð var ég í föstu starfi til síðustu áramóta eða í 34 ár og hálfu betur. Fyrst var ég annar stýrimaður og leysti af sem fyrsti. Árið 1989 fór hinsvegar faðir minn, Jón Kristinn Pálsson, í land eftir langan feril og þá varð ég fyrsti stýrimaður og skipstjóri á móti Axel Ágústssyni. Faðir minn hafði verið skipstjóri á Seyðisfirði frá 1959 en þá réðst hann á Gullver sem var í eigu Ólafs Marels Ólafssonar. Árið 1963 stofnuðu hann og Ólafur hlutafélag um útgerðina sem hlaut nafnið Gullberg og þetta félag eignaðist nokkur skip en það síðasta var einmitt ísfisktogarinn Gullver sem hefur svo sannarlega staðið fyrir sínu.“
Þegar Jónas er spurður hvað hafi helst breyst á þeim tíma sem hann starfaði sem skipstjóri segir hann að það sé án efa tilkoma allra þeirra nema sem komnir eru á trollið. „Nú er unnt að fylgjast með veiðarfærinu og veiðinni af allmikilli nákvæmni. Það er ótrúleg framför sem felst í því. Í reyndinni má segja að þetta sé byltingarkennd breyting.“
Spurður að því hvort hann sakni ekki einhvers af sjónum er hann fljótur að svara. „Jú, jú, ég sakna ýmissa þátta, en þetta var orðið gott. Það var kominn tími til að breyta til, vera frjáls og ráða sér sjálfur. Ég hef hins vegar farið í þrjá afleysingatúra frá því ég hætti þannig að segja má að löngum ferli sé ekki alveg lokið. Og ég fer líka í næsta túr. Ég játa það hins vegar að það er ólíkt skemmtilegra að taka þessa túra í góðu veðri yfir sumartímann en í vetrarbrælunum,“ segir Jónas að lokum.