Falleg síld veiðist nú fyrir austan

Það eru miklar annir í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað um þessar mundir. Norsk – íslensk síld veiðist við bæjardyrnar og áhersla er lögð á að gera sem mest verðmæti úr henni. Byrjað var að landa úr Berki NK í gærmorgun en hann var með 1.380 tonn. Vinnslu úr honum lýkur í kvöld en þá verður Beitir NK kominn með 1.000 tonna afla. Þegar vinnslu lýkur úr Beiti verður unninn makríll úr Barða NK en hann er væntanlegur með 230 tonn af stórum og góðum makríl.

Lögð er áhersla á framleiðslu roðlausra síldarflaka

Karl Rúnar Róbertsson, gæðastjóri í fiskiðjuverinu, segir að framleiðslan gangi vel. „Við erum að vinna afar fallega síld um þessar mundir og hún er í reynd eins fersk og hún getur verið enda veiðist hún hér rétt fyrir utan. Núna er mest af síldinni flakað og lögð áhersla á roðlaus flök sem eru vakúmpökkuð. Þá er hluti af síldinni heilfrystur. Síðan eigum við von á makríl sem Barði er að koma með. Að lokinni makrílvinnslunni er röðin komin að reglubundnum þrifum en þá er fiskiðjuverið þrifið hátt og lágt. Að því loknu hefst vinnsla síldarinnar að nýju. Það er svo sannarlega nóg að gera hjá okkur um þessar mundir,“ segir Karl Rúnar.