Síldarvinnsluskipin hafa lokið veiðum á þessari loðnuvertíð og eru þau ýmist að landa, bíða löndunar eða á landleið úr síðasta túr. Beitir er að landa hrognaloðnu í Neskaupstað og Börkur býður þar löndunar með 1.800 tonn. Bjarni Ólafsson er á austurleið með hrognaloðnu af miðunum fyrir vestan.
Börkur lauk vertíðinni út af Skagafirði þar sem góður afli fékkst í gær. Haft var samband við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóra og hann spurður hvort ekki væri óvenjulegt að ljúka veiðum á loðnuvertíð á þessum slóðum. „Jú, það má segja að það hafi komið á óvart. Þarna var mokveiði í gær. Við köstuðum sex eða sjö sinnum og fengum upp í 800 tonn í kasti. Beitir var á austurleið og átti þarna leið hjá og þá vorum við akkúrat að dæla. Við notuðum tækifærið og gáfum honum 200 tonn. Þetta er smærri loðna en fyrir vestan og hrognaþroskinn er ekki eins langt kominn. Þroskinn er kannski 18-20% og þessi loðna á talsvert eftir í hrygningu. Annars hefur vertíðin gengið vel – góð veður og góð veiði. Það var ekkert sjálfgefið að ná þessum kvóta á svona stuttum tíma en það tókst og allir eru ánægðir,“ sagði Hálfdan.