Loðnuveiði lá niðri í gær vegna veðurs. Undir morgun gekk veðrið niður og þá byrjuðu skipin að kasta. Loksins er útlit fyrir þokkalegt veður á miðunum en það varir vart nema fram undir helgi. Heimasíðan hafði samband við Tómas Kárason skipstjóra á Beiti í morgun um klukkan hálf tíu og spurðist fyrir um veiðiútlit. „Við erum staddir um 30 mílur norðvestur af Siglunesi og hérna eru þokkalegar lóðningar. Loðnan stendur hins vegar djúpt núna en hún kemur kannski upp á eftir, um hádegisbil eða svo. Við erum búnir að taka eitt kast en það var lítið í því. Bátarnir hafa verið að kasta og Vilhelm Þorsteinsson fékk til dæmis 250 tonn hér áðan. Annars þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn og það er svo sannarlega gott að vera loksins búinn að fá gott veður,“ sagði Tómas.