Sl. fimmtudag varð grænlenska skipið Polar Amaroq vart við loðnu úti fyrir Suðausturlandi og byrjaði að kasta. Í fyrstu fékkst afar lítið í hverju kasti. Á föstudag komu íslensk skip á miðin, þar á meðal Börkur NK. Kastað var ótt og títt þann dag en köstin reyndust lítil og annað veifið var búmmað. Á laugardaginn jókst veiðin verulega og fengust þá sæmileg köst. Við þessar fréttir hýrnaði yfir mönnum og margir sögðu loksins, loksins.

Börkur NK kom til Neskaupstaðar aðfaranótt sunnudags með 800 tonn sem fengust í 6 köstum  og fer aflinn til manneldisvinnslu. Í nótt kom síðan Polar Amaroq með 1600 tonn og mun landa í manneldisvinnsluna á eftir Berki.

Loðnan sem Börkur kom með er ágæt og nýtist vel í frystingu.

Birtingur NK hélt á miðin sl. laugardag og er lagður af stað í land með tæplega 700 tonn  og Bjarni Ólafsson AK er að koma á miðin.

Norski loðnuflotinn hefur leitað loðnu austur og norðaustur af landinu og ekkert fundið að gagni. Norðmennirnir mega veiða hér við land til 15. Þessa mánaðar og þeir mega ekki veiða fyrir sunnan 64 ̊30, þannig að þeir geta ekki veitt á þeim slóðum sem íslensku skipin og hið grænlenska eru að fá aflann um þessar mundir.