Í morgun var verið að landa loðnu úr Beiti NK í Neskaupstað. Bjarni Ólafsson AK beið löndunar með fullfermi. Ljósm. Smári Geirsson

Nú er löndunarbið hjá loðnuskipunum sem landa afla sínum í verksmiðjur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Í Neskaupstað landaði Vilhelm Þorsteinsson EA 2.750 tonnum sl. laugardag og nú er Beitir NK að landa rúmum 2.500 tonnum. Bjarni Ólafsson AK bíður löndunar í Neskaupstað með 1.900 tonn. Á Seyðisfirði er verið að landa 1.650 tonnum úr Hákoni EA en í höfninni bíða Polar Amaroq með 1.300 tonn og Polar Ammassat með 1.850 tonn. Nú eru einungis þrjú skip sem landa afla sínum hjá Síldarvinnslunni á miðunum en það eru Börkur NK, Barði NK og Vilhelm Þorsteinsson EA.

Vinnsla í fiskimjölsverksmiðjum Síldarvinnslunnar gengur vel. Hafþór Eiríksson, verksmiðjustjóri í Neskaupstað segir að allt gangi eins og í sögu enda sé hráefnið nýtt og gott. Eggert Ólafur Einarsson, verksmiðjustjóri á Seyðisfirði, tekur undir þetta og segir að hráefnið geti vart verið nýrra: „Þetta er svo nýtt að það liggur við að það syndi í gegnum sjóðarana,“ segir Eggert.

Heimasíðan sló á þráðinn til Hálfdans Hálfdanarsonar, skipstjóra á Berki, í morgun og spurðist frétta. „Af okkur er allt ágætt að frétta nema að það er drullubræla núna. Við erum komir alveg vestur undir Grímsey því talið er að veðrið gangi fyrr niður hér en austar. Það er hins vegar ekkert veður komið enn. Það hefur verið ágætis veiði síðustu dagana. Það hafa fengist góð hol yfir daginn en eins og áður fæst oft heldur lítið yfir nóttina. Stærsta dagholið okkar var 920 tonn en oft eru holin yfir daginn 400-500 tonn. Við erum komnir með 2.655 tonn um borð og það er ætlunin að bæta við enda er löndunarbið bæði í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Mönnum líst vel á vertíðina og trúa því að hún verði góð en auðvitað fer mikið eftir veðri,“ segir Hálfdan.