Löndun úr Bjarti NK. Ljósm. Hákon ErnusonLöndun úr Bjarti NK. Ljósm. Hákon ErnusonAlmennt má segja að vel hafi fiskast hjá togurum Síldarvinnslunnar og dótturfélaga hennar í maímánuði síðastliðnum. Annan mánuðinn í röð slógu ísfisktogarar Bergs-Hugins met hvað aflaverðmæti varðar. Aflinn var tæplega 1100 tonn hjá Bergey og Vestmannaey þó svo að Vestmannaey hafi verið í slipp hluta af mánuðinum. Aflaverðmæti skipanna tveggja í maímánuði var 278 milljónir króna eða litlu meira en var í aprílmánuði síðastliðnum.
 
Ísfisktogarinn Bjartur NK aflaði 561 tonn í mánuðinum. Var hann mest við veiðar á Vestfjarðamiðum og landaði sex sinnum. Þorskafli Bjarts var 319 tonn en annars var ufsi og karfi uppistaða aflans. Ísfisktogarinn Gullver NS var að veiðum fyrir austan í mánuðinum og var afli hans 478 tonn, þar af 241 tonn þorskur.
 
Frystitogarinn Barði NK landaði hinn 10. maí. Aflinn var 400 tonn upp úr sjó og var hann blandaður; ufsi, karfi, þorskur og gulllax. Skipið landaði á ný 2. júní og aftur var aflinn 400 tonn upp úr sjó. Í þeirri veiðiferð var karfi og ufsi uppistaða aflans.