Uppsjávarskipið Beitir hélt til makrílveiða í gær og hóf þegar að toga í Hvalbakshallinu. Börkur mun síðan halda til veiða í dag. Tómas Kárason skipstjóri á Beiti sagðist vera þokkalega bjartsýnn hvað veiðihorfur varðaði. „Við vorum að hífa fyrsta holið eftir að hafa togað í 6 tíma og þetta eru um 100 tonn. Aflinn er nánast hreinn makríll, það er einungis ein og ein síld í þessu,“ sagði Tómas um hádegisbil í dag.
Frystitogarinn Barði hóf makrílveiðar í byrjun mánaðarins og hefur verið að veiðum fyrir suðaustan og sunnan land. Haft var samband við Theodór Haraldsson skipstjóra og sagði hann að veiðin hefði verið misjöfn þennan tíma: „Í byrjun túrsins fiskuðum við grálúðu en hófum makrílveiðar fljótlega; byrjuðum í Hvalbakshalli en höfum fært okkur vestar og erum nú í Grindavíkurdýpi. Ég reikna með að við verðum komnir með fullfermi, um 180 tonn af afurðum, í byrjun næstu viku og þá verður komið til löndunar“, sagði Theodór.