Beitir NK kemur með makríl- og síldarfarm til Neskaupstaðar. Ljósm. Margrét ÞórðardóttirBörkur NK kom til löndunar í Neskaupstað í gær með 680 tonn af makríl og síld. Veiði hafði verið heldur treg frá því að skipin sem landa í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar hófu vertíðina en hún hefur verið að glæðast síðustu daga. Nú hefur rúmlega 3000 tonnum af makríl og síld verið landað til vinnslu í fiskiðjuverinu og hefur framleiðslustarfsemin gengið vel. Þá hefur um 3000 tonnum af sjófrystum makríl og síld verið landað í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Það eru Vilhelm Þorsteinsson EA og Kristina EA sem komið hafa með sjófrysta aflann að landi; Vilhelm með um 1400 tonn í þremur veiðiferðum og Kristina 1600 tonn í einni veiðiferð.

Beitir NK er á miðunum og hafði fengið 250 tonn í tveimur holum þegar rætt var við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra. „Veiðin er að aukast og þetta er ágætis nudd“,sagði Hjörvar. „ Við erum í okkar þriðja túr á vertíðinni og þetta er allt á uppleið. Fiskurinn er fínn, stór og góð síld og meðalþyngd makrílsins er yfir 400 grömm. Hinsvegar er töluverð áta í fiskinum. Nú ber á því að síldin er að skilja sig frá makrílnum og það virðist vera að gerast á sama tíma og á vertíðinni í fyrra. Nú er bara að vona að veðrið haldist gott og þá er ég viss um að veiðin verður í góðu lagi. Nú er hér svolítill kaldi, 12-14 metrar og það er ekki gott fyrir yfirborðsveiðar eins og þessar“.