Börkur NK er að landa 800 tonnum af makríl í Neskaupstað og fer allur aflinn til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Aflann fékk skipið í Smugunni. Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri á Berki segir að mikil ferð sé á fiskinum og því þurfi stundum að gefa sér góðan tíma til að leita. „Makríllinn er sprettharður fiskur og það getur verið mikið fart á honum. Í túrnum eltum við hann í yfir 100 mílur á einungis tveimur sólarhringum. Hann fer svo hratt yfir að þegar fréttist af makríl einhvers staðar er fréttin strax orðin gömul því það er engin vissa fyrir því að finna makríl þegar komið er á staðinn. Við fengum aflann í fimm holum og besta holið gaf 260 tonn og þá var togað í rúman klukkutíma. Fiskurinn er frekar stór og ekki mikil áta í honum. Það bendir allt til þess að makrílgöngurnar séu miklu seinna á ferðinni nú en síðustu ár og því hefur vertíðin ekki farið af stað af miklum krafti. Ég hef hins vegar fulla trú á að menn nái að veiða kvótann,“ segir Hálfdan.
Bjarni Ólafsson AK er væntanlegur til Neskaupstaðar í fyrramálið með 770 tonn sem einnig fengust í Smugunni og Beitir NK er þar að veiðum. Einnig hefur frést af makrílafla fyrir vestan land og vart hefur orðið við makríl suðaustur af landinu síðustu daga.