Úr fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.  Ljósm. Margrét ÞórðardóttirÍ fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hefur  verið samfelld vinnsla á makríl og síld undanfarna daga. Beitir NK kom til löndunar með 435 tonn á laugardag og Bjarni Ólafsson AK með 405 tonn á sunnudag. Um það bil þrír fjórðu hlutar afla skipanna var makríll en um fjórðungur síld. Nú bregður svo við að heldur dauft er yfir veiðunum eystra en þar var þokkaleg veiði í síðustu viku.

Frystitogarinn Barði NK hefur verið á makrílveiðum fyrir vestan land og er nú um 34 mílur suðvestur af Snæfellsnesi. Veiðin hefur verið nægjanleg til að halda uppi fullri vinnslu og hafa verið fryst um 60 tonn þar um borð.

Grænlenska uppsjávarveiðiskipið Polar Amaroq er væntanlegt til Helguvíkur í nótt með 1700-1800 tonn af makríl sem fékkst innan grænlenskrar lögsögu. Skipið hefur að undanförnu verið þar að veiðum og hefur stór hluti aflans verið unnin um borð í vinnsluskipi en nú er hluti hans semsagt á leið til Íslands þar sem hann fer til mjöl- og lýsisvinnslu en vonandi einnig til manneldisvinnslu. Reynt verður að selja fiskvinnslufyrirtækjum  á Reykjanesi hluta af farminum til manneldisvinnslu og standa vonir til að þau geti fengið gott hráefni til vinnslu úr þeim makrílförmum sem á næstunni munu berast úr grænlensku lögsögunni.  Þessi farmur Polar Amaroq er fyrsti makrílfarmurinn sem berst til fiskimjölsverksmiðjunnar í Helguvík að sögn Eggerts Ólafs Einarssonar verksmiðjustjóra. „Við erum nú að vinna að mönnun verksmiðjunnar en gert er ráð fyrir að vinnsla hefjist í fyrramálið“, sagði Eggert. „Við höfum aldrei áður fengið makríl til vinnslu hér í Helguvík og sumir af okkar fastamönnum eru í sumarfríi. Starfsmenn fiskimjölsverksmiðjunnar á Seyðisfirði munu hins vegar bjarga málum og koma til liðs við okkur“.

Birtingur NK mun halda til veiða í grænlensku lögsögunni þegar Polar Amaroq hefur lokið við að landa í Helguvík en gert er ráð fyrir að skipin muni partrolla þar. Skipstjóri á Birtingi er Tómas Kárason.