Árið 2006 fór makríll að veiðast sem meðafli í síldveiðum austur af landinu og veiddust þá um 4.000 tonn. Fljótlega fóru menn að velta því fyrir sér hvaða möguleika tilkoma makríls í íslenska lögsögu skapaði og árið eftir hófust beinar makrílveiðar. Veiðarnar þóttu fara vel af stað og bárust þá um 37.000 tonn á land. Mikilvægt þótti að nýta þessa nýju auðlind og sýna með skýrum hætti fram á að makríllinn væri farin að ganga í verulegum mæli inn í lögsöguna. Á næstu árum jókst makrílaflinn verulega og við blasti sú staðreynd að makríllinn var orðinn ein af mikilvægustu fisktegundunum sem nýtt var við landið. Helstu veiðisvæði makrílflotans á Íslandsmiðum voru framan af austur- og suðaustur af landinu en síðan jókst aflinn á vesturmiðum og næstu árin var veiðin stunduð á öllum þessum miðum. Forsendan fyrir því að makríll hóf að ganga í ríkum mæli á Íslandsmið var hlýnun sjávar og eins getur minnkandi fæðuframboð á hefðbundnum ætisslóðum hafa haft þau áhrif að hann leitaði annað. Yfirleitt fór að verða vart við makríl á Íslandsmiðum í júnímánuði og var unnt að veiða hann á tímabilinu júní-september ár hvert.

                Rétt er að geta þess að þegar makríll hóf að veiðast í íslenskri lögsögu árið 2006 hafði hans ekki orðið vart í miklum mæli við landið um áratuga skeið. Heimildir benda hins vegar til þess að á hlýskeiðum fyrri ára í sjónum hafi makríll gert sig heimakominn við Íslandsstrendur. Undir lok 19. aldar varð vart við makríl út af Vestur- og Norðurlandi og sumarið 1904 virðist hafa verið allmikið af makríl við landið og varð hans vart frá Hrútafirði austur að Glettinganesi. Eins greina heimildir frá makrílgöngum við Austfirði og Vesturlandið sumrin 1906 og 1908.

                Upp úr 1926 tók sjórinn við Ísland að hlýna verulega og þá var makríll alllengi nánast árlegur gestur við strendur landsins. Árið 1928 veiddist makríll fyrir norðan land og árið 1930 geta heimildir um mikið af makríl út af Austfjörðum. Talsvert af makríl var við Suðurnes árið 1934 og 1938 varð vart við hann suðvestur af landinu. Einnig bárust fréttir af makrílgengd út af Vestfjörðum og Norðurlandi á lýðveldisárinu 1944.

                Á þessum tíma var makríll ekki veiddur með skipulegum hætti heldur fékkst hann sem meðafli í síldarnætur og –net. Þegar hlýindaskeiðinu í sjónum lauk upp úr 1960 hættu makrílfréttir að berast. Hitinn í hafinu við landið hélst tiltölulega lágur fram undir árið 2000 að undanskyldu hlýindaskeiði um 1970 og þá veiddu reyndar íslensk skip makríl í litlum mæli. Hér skal þess getið að togarinn Sjóli frá Hafnarfirði landaði nokkru magni af makríl í Neskaupstað sumarið 1998 og var sá afli frystur.

                Þegar makríll tók að veiðast sem meðafli árið 2006 voru vinnslufyrirtækin í reynd alls ekki tilbúin að taka á móti aflanum til manneldisvinnslu og því fór hann nánast að öllu leyti í mjöl- og lýsisvinnslu. Gerðar voru tilraunir til að lausfrysta eitthvað af makrílnum en þær vógu ekki þungt. Ýmsir höfðu að orði að ekki væri unnt að frysta makríl sem veiddur væri á þessum árstíma því áta væri í fiskinum og fita ekki almennilega sest í holdið.

                Mikilvægt þótti á þessum tíma að sýna með óyggjandi hætti fram á að makríll væri farinn að ganga í ríkum mæli á Íslandsmið og var öll áhersla lögð á að veiða sem mest. Árið 2009 var hins vegar gefið út kvótaþak og árið eftir gefinn út kvóti á hvert skip. Afleiðing þessa varð sú að áhersla á manneldisvinnslu stórjókst og farið var að hyggja að fjárfestingum í heppilegum vinnslubúnaði. Þá þurfti að leggja af mörkum mikla vinnu á sviði markaðsmála þegar manneldisvinnslan hófst af krafti.

                Frá þessum tíma hefur öll áhersla verið lögð á manneldisvinnslu á makríl hjá Síldarvinnslunni og öðrum fyrirtækjum sem sinna makrílvinnslu. Fyrir uppsjávarfyrirtæki eins og Síldarvinnsluna hefur tilkoma makrílsins haft gríðarleg áhrif og á undanförnum árum er makríllinn sú uppsjávartegund sem er verðmætust. Síðustu árin hafa íslensk veiðiskip veitt makrílinn bæði innan lögsögunnar og í svonefndri Síldarsmugu.

                Yfirstandandi makrílvertíð hefur verið með nokkuð öðrum hætti en makrílvertíðir síðustu ára. Þar ber helst að nefna að lítið hefur veiðst af makríl í íslenskri lögsögu en nánast öll veiðin farið fram í Síldarsmugunni. Upplýsingar liggja fyrir um að töluvert sé af makríl innan íslenskrar lögsögu en hann hefur ekki fundist í þeim þéttleika sem þarf til að vera veiðanlegur. Veiðin í Síldarsmugunni hefur verið sveiflukennd; ágætlega veiðist um tíma en síðan dettur veiðin niður og skipin hefja leit. Þá er langt að sækja á miðin því gjarnan tekur hálfan annan sólarhring að sigla á miðin frá Austfjörðum og síðan til lands með afla. Þessi staða kallaði á viðbrögð og er það nú algengt að skip hafi samstarf um veiðarnar. Reyndar hóf Síldarvinnslan slíkt samstarfsfyrirkomulag þegar veiðarnar fóru fram í Síldarsmugunni á síðasta ári. Samstarfið felst í því að skipin sem eiga hlut að máli dæla afla hverju sinni um borð í eitt skip sem siglir síðan með hann til hafnar á meðan hin skipin halda áfram veiðunum. Þetta fyrirkomulag tryggir að skipin séu ekki að sigla langan veg með litla farma og eins tryggir það að aflinn kemur ávallt eins ferskur að landi og mögulegt er. Síldarvinnslan og Samherji hafa haft samstarf um veiðarnar á yfirstandandi vertíð og taka fimm skip þátt í því; Börkur NK, Beitir NK, Bjarni Ólafsson AK, Börkur II NK og Vilhelm þorsteinsson EA. Segja má að makrílvertíðin hafi gengið vel hjá þessum flota miðað við aðstæður og aldrei hafa komið löng vinnsluhlé þannig að veiðisamstarfið hefur sannað sig ágætlega.

                Nú er skammt eftir af makrílvertíðinni og þegar er farið að hyggja að blessaðri síldinni.

Samstarf veiðiskipa hefur skipt miklu máli á yfirstandandi makrílvertíð. Á myndinni er Börkur NK að dæla makríl um borð í Börk II NK á miðunum. Ljósm. Haraldur Egilsson