Makrílvinnsla í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar.  Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirMakrílveiðar hefðu mátt ganga betur á miðunum fyrir austan land. Þrjú skip, Beitir NK, Börkur NK og Bjarni Ólafsson AK, landa til vinnslu í fiskiðjuverinu í Neskaupstað og dugar afli þeirra vart til að halda uppi samfelldri vinnslu. 

Ísfisktogarinn Bjartur NK kom til Neskaupstaðar í morgun úr sínum fyrsta makríltúr á vertíðinni. Aflinn var um 80 tonn og fékkst hann í Hvalbakshalli. Togarinn var í einn og hálfan sólarhring á veiðum og gekk ágætlega að meðhöndla aflann um borð en hann er settur í ískrapa í körum. Um 90% aflans var makríll og um 10% síld. Bjartur heldur aftur til makrílveiða í kvöld.

Frystitogarinn Barði NK er á makrílveiðum og það annar túrinn sem hann fer á vertíðinni en hann landaði í byrjun vikunnar.

Birtingur NK kemur til löndunar í Neskaupstað í fyrramálið og er hann með um 1500 tonn af makríl úr grænlensku lögsögunni.

Grænlenska uppsjávarveiðiskipið Polar Amaroq er á leið til Helguvíkur með um 1600 tonn úr grænlensku lögsögunni og er það annar farmurinn sem skipið kemur með þangað.