Börkur NK að landa í Neskaupstað. Ljósm. Smári Geirsson

Upp á síðkastið hefur verið erfitt að veiða makrílinn. Skipin hafa verið í Síldarsmugunni og þar hefur mikið verið leitað. Einstaka sinnum finnast torfur og þá fyllast menn bjartsýni en fljótlega dregur úr veiðinni og þá hefst leit á ný. Fiskurinn virðist vera mjög dreifður og þá er erfitt að ná veiðiárangri. Vonandi á þetta ástand eftir að breytast og víst er að þá lyftist brúnin á mörgum. Börkur II NK kom til Neskaupstaðar sl. laugardag með um 670 tonn, þar af rúmlega 500 tonn af síld sem fékkst út af Austfjörðum. Í kjölfarið kom síðan Börkur NK með 490 tonn af makríl og síld. Makríllinn var um 340 tonn af afla skipsins en megnið af síldinni fékkst úr af Austfjörðum. Nú er Bjarni Ólafsson AK á landleið með um 670 tonn og er hann væntanlegur í fyrramálið.

Athygli hefur vakið að niðurstöður rannsóknaleiðangurs, sem nýlega er lokið, sýna að meira magn af makríl sé til staðar í íslenskri lögsögu í ár en í fyrra. Niðurstöðurnar sýna jafnframt að þéttleiki makrílsins sé lítill og hann því dreifður í hafinu austur af landinu.