Beitir NK kom með stóran og fallegan makríl til löndunar í gærkvöldi. Ljósm. Sigurjón Mikael Jónuson

Í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað var lokið við að vinna makrílafla úr Berki NK í gær. Afli Barkar var 1440 tonn og hélt skipið á ný til veiða strax að löndun lokinni. Í gærkvöldi kom síðan Beitir NK með 1100 tonn og hófst vinnsla úr honum strax. Heimasíðan ræddi við Tómas Kárason, skipstjóra á Beiti, og spurði hann fyrst hvernig makríllinn væri. “Makríllinn er stór og fallegur. Þetta er 520 til 530 gramma fiskur en í honum er töluverð áta. Veiðin hefur verið misjöfn að undanförnu og það var bölvuð bræla áður en við fórum í land. Við vorum að veiðum 120 mílur austsuðaustur af Norðfjarðarhorni en nú eru bátarnir komnir töluvert norðar og fengu sumir þokkalegasta afla í gærkvöldi. Færeyingar voru að fiska mjög vel inni í færeysku lögsögunni í gær. Þeir voru að fá allt upp í 600 tonna hol. Gera má ráð fyrir að fiskurinn gangi norðvestur eftir og inn í íslenska lögsögu. Við erum fimm Síldarvinnslu- og Samherjaskip í samstarfi um veiðarnar og það gengur mjög vel. Við byrjuðum á þessu veiðisamstarfi og nú hafa ýmsir aðrir fetað í okkar fótspor. Samstarfið er einkar mikilvægt þegar ekki veiðist mikið því þá er verið að koma með ferskari afla að landi en ella. Þessi vertíð er frábrugðin vertíðinni í fyrra að því leyti að miklu meira hefur veiðst innan íslenskrar lögsögu. Í fyrra voru menn mest í Smugunni en þar hefur verið lélegt núna. Ég er bjartsýnn varðandi framhaldið. Þó veiðin sé misjöfn frá einum tíma til annars þá lítur þetta ágætlega út og það sem er kannski mikilvægast er að veiðin skuli vera innan íslenskrar lögsögu,” segir Tómas.