Fyrir og um helgina var bræla fyrir austan og þegar hún gekk niður reyndist erfitt fyrir veiðiskipin að finna makrílinn á miðunum þar. Þá sneri Beitir NK sér að því að veiða síld og kom í nótt til Neskaupstaðar með 440 tonn. Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, segir að um sé að ræða stóra og fallega norsk-íslenska síld. „Við fengum síldina innarlega í Norðfjarðardýpinu og á landleiðinni sáum við nokkrar afar fallegar síldartorfur nær landi. Það virðist vera töluvert af síld á þessum slóðum,“ sagði Tómas.
Tómas segir að eftir brælur hverfi makríllinn stundum og hafi það líka gerst á síðustu vertíð. Síðan jafni þetta sig og ágæt makrílveiði hafi til dæmis verið um 60 mílur út af Norðfjarðarhorni í gærkvöldi.
Vegna þess hve erfiðlega gekk að finna makrílinn eystra hélt Bjarni Ólafsson AK til veiða vestur fyrir land. Hann er nú á leið til Neskaupstaðar með rúmlega 400 tonn af makríl sem fékkst í tveimur holum á Jökulbanka í Faxaflóanum.