Makrílveiðarnar í Síldarsmugunni hafa gengið misjafnlega í sumar. Komið hafa góð veiðiskot en þess á milli hefur verið tregt og skipin þurft að leita mikið. Makríllinn heldur sig við yfirborð og niður á 20 – 30 metra. Oft er hann það ofarlega að mælar skipanna nema hann ekki en þá sést hann oft vaða. Vegna þess hve fiskurinn heldur sig ofarlega í sjónum er trollið dregið við yfirborðið. Það er misjafnlega lengi dregið. Þegar aflast vel er dregið í 1 – 2 tíma en þegar lítið er um fisk er gjarnan dregið í 7 – 8 tíma. Það er oft mikil ferð á makrílnum og þurfa menn stundum að hafa sig alla við til að fylgja honum. Þegar best fiskaðist á dögunum fór hann 40 – 60 mílur á sólarhring í norðurátt. Hér fylgir mynd sem Björn Steinbekk tók af Berki NK að draga á makrílmiðunum fyrir nokkrum dögum. Eins og sést er trollið dregið við yfirborð og má glögglega sjá hve möskvarnir fremst í trollinu eru stórir.

Börkur NK landaði um 900 tonnum í Neskaupstað um helgina og Vilhelm Þorsteinsson EA er væntanlegur með um 1.000 tonn í dag. Lítil veiði hefur verið síðustu sólarhringa og einhverri brælu er spáð á miðunum næstu daga.

Börkur NK að veiðum í Síldarsmugunni. Ljósm. Björn Steinbekk