Á makrílmiðunum í Smugunni. Ljósm. Björn Steinbekk

Mjög góð makrílveiði er nú í Smugunni rétt við íslensku línuna. Fiskurinn sem fæst er stór og fallegur og gengur hratt í vestur í átt að íslensku lögsögunni. Beitir NK kom til Neskaupstaðar með rúmlega 1.000 tonn sl. laugardag og á sunnudaginn kom Barði NK með 1.220 tonn. Bjarni Ólafsson AK hélt til Færeyja með 900 tonn um helgina. Börkur NK er á landleið til Neskaupstaðar með um 1.600 tonn og ræddi heimasíðan við Ólaf Gunnar Guðnason stýrimann. „Það er mokveiði núna um það bil 240 mílur frá landi. Þegar við kláruðum okkar síðasta hol átti fiskurinn einungis 13 mílur eftir að íslensku línunni en hann fer 3-4 mílur á klukkustund. Í síðasta holinu fengum við 310 tonn eftir að hafa dregið í fimm og hálfan tíma. Makríllinn sem veiðist núna er stór og fallegur. Þetta er 520-530 gramma fiskur en í honum er dálítil áta. Það þarf svolítið að hafa fyrir því að ná makrílnum þarna því hann er mjög styggur, einkum á daginn,“ segir Ólafur Gunnar.

Hér skal á það minnt að í byrjun mánaðarins fór makrílveiðin fram um 650 mílur frá landinu þannig að veiðisvæðið hefur færst nær sem nemur um 400 mílum.