Makríllinn verður sífellt betri. Ljósm. Smári GeirssonMakrílveiðin hjá skipunum sem landa til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hefur gengið vel að undanförnu. Þegar þetta er skrifað liggur Bjarni Ólafsson AK í höfn að aflokinni löndun, Börkur NK er að veiðum og Beitir NK er að landa. Beitir kom til hafnar síðastliðna nótt með 600 tonna afla, 400 tonn af makríl og 200 af síld. Að sögn Tómasar Kárasonar skipstjóra á Beiti var skipið um 25 klukkustundir að veiðum í veiðiferðinni og veiðisvæðið var sunnan við svonefnda Holu eða 40-50 sjómílur suðaustur af Norðfjarðarhorni. „Aflinn er heldur blandaðri en hann hefur verið,“ sagði Tómas,“ en mestu munar þó um hreint 100 tonna síldarhol sem fékkst í Reyðarfjarðardýpinu nokkru norðar en við vorum annars að veiðum. Makríllinn er sífellt að verða betri og er orðinn býsna góður. Fiskurinn er feitur, fallegur og stinnur og afar lítil áta í honum. Hann er í reyndinni fyrirmyndarhráefni eins og hann er í dag.“

Að sögn Tómasar eru tæplega 2000 tonn eftir óveidd af makrílkvóta Síldarvinnslunnar.