Landað úr Vilhelm Þorsteinssyni EA í morgun. Ljósm. Smári Geirsson

Eins og greint var frá hér á heimasíðunni landaði Börkur NK fyrsta makrílfarmi vertíðarinnar í Neskaupstað sl. föstudag. Aflinn var 320 tonn og fékkst hann á Þórsbankanum. Síðan héldu skipin, sem landa makríl hjá Síldarvinnslunni, út í Smuguna og þar hafa veiðarnar síðan farið fram. Fyrsti Smugufarmurinn barst síðan til Neskaupstaðar í gærkvöldi þegar Vilhelm Þorsteinsson EA kom með 1160 tonn. Heimasíðan ræddi stuttlega við Birki Hreinsson skipstjóra á Vilhelm og spurði fyrst hvernig honum litist á nýbyrjaða vertíð. „Mér líst bara vel á hana. Hvernig á annað að vera; við erum með nýtt og glæsilegt skip í höndunum og makríllinn er farinn að kroppast. Aflinn úti í Smugu hefur farið vaxandi. Fyrst þegar skipin komu þangað voru að fást allt niður í 40 tonn í holi en þetta jókst í restina og stærstu holin voru yfir 300 tonn. Þessi 1160 tonn sem við komum með núna er sameiginlegur afli okkar, Barkar og Beitis, en skipin hafa samstarf um veiðarnar. Þetta er stór makríll sem þarna fæst, 470-500 gr. meðalvigt, en hann er hins vegar heldur horaður á þessum árstíma. Nú fer hann hins vegar að fitna hressilega. Það er spurning hvort makríll gangi í ríkum mæli inn í íslenska lögsögu, vonandi gerist það með hlýnun sjávarins, en sjórinn hefur verið heldur kaldur. Það er alltaf spennandi að hefja vertíð og ég trúi því að hún eigi eftir að verða góð,“ segir Birkir.

Þær fréttir bárust úr Smugunni í morgun að Beitir væri kominn með 1000 tonn um borð. Hann hífði 190 tonn í morgun og Börkur 240 tonn. Skipin voru 305 mílur frá landi.