Nú er makríls leitað innan íslenskrar lögsögu.
Ljósm. Helgi Freyr Ólason

Makrílveiðin í Smugunni hefur farið minnkandi upp á síðkastið og nú er makríls leitað innan íslenskrar lögsögu austur af landinu. Heimasíðan ræddi í morgun við Runólf Runólfsson, skipstjóra á Bjarna Ólafssyni AK, en Bjarni tekur einmitt þátt í leitinni innan lögsögunnar. „Við vorum í gær á Rauða torginu og tókum þar tvö hol. Aflinn var samtals 100 tonn af mjög góðum og stórum makríl. Við fengum fréttir frá hafrannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni í gær um vaðandi makríl á Drekasvæðinu og þá var haldið norður eftir. Við erum núna 100 mílur austnorðaustur af Langanesi en það er lítið að frétta. Ásamt okkur eru Börkur, Beitir og Ísleifur að leita og vonandi skilar leitin árangri á endanum. Það fer ekkert á milli mála að það er makríll í lögsögunni og bátar hafa orðið varir við hann víða. Vandamálið er það að hann virðist ekki þétta sig – hann er ekki nógu félagslyndur blessaður, allavega ekki ennþá. Annars spáir hann óhagstæðu veðri bæði í Smugunni og hér upp við landið. Líklega verður bræla alveg fram á mánudag,“ segir Runólfur.