Beitir NK og Bjarni Ólafsson AK á makrílmiðunum fyrir vestan land. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK og Bjarni Ólafsson AK á makrílmiðunum
fyrir vestan land. Ljósm. Helgi Freyr Ólason
Makrílveiðarnar hafa gengið erfiðlega síðustu daga. Skipin hafa verið að leita bæði fyrir vestan og austan land en almennt hefur veiði verið heldur slök. Einstaka skip hafa þó verið að fá sæmileg hol. Beitir NK kom til Neskaupstaðar í gær að vestan  með 830 tonn og var þar um að ræða eigin afla og afla Bjarna Ólafssonar AK. Mun Bjarni hafa átt um 320 tonn af aflanum sem fékkst að mestu á Látragrunni. Makríllinn sem Beitir kom með er stór og fallegur og gengur vel að vinna hann.
 
Heimasíðan ræddi við Tómas Kárason skipstjóra á Beiti og spurði hvernig honum litist á nýbyrjaða makrílvertíð. „Það er staðreynd að menn verða heldur lítið varir við makríl á miðunum þessa dagana bæði fyrir vestan og austan en það er vert að rifja upp að í fyrra fór fyrst að veiðast verulega um miðjan ágúst. Þetta getur þannig breyst mjög snögglega. Í fyrra var líka bæði veitt fyrir vestan og austan land. Frystitogararnir hafa til dæmis mikið haldið sig fyrir vestan. Börkur hefur verið að leita hér fyrir austan að undanförnu og er hann kominn með einhvern afla. Mér skilst að hann hafi fundið takmarkað af makríl en hins vegar mikla síld. Fréttir hafa borist af vaðandi makríl við landið fyrir vestan, t.d. inni á Breiðafirði, en þar getum við ekki veitt. Ef menn verða lítið varir við makríl næstu daga þarf að fara að hugsa út fyrir kassann og leita á nýjum svæðum“, segir Tómas.