Börkur NK að landa makríl í sumar.  Ljósm. Margrét ÞórðardóttirBeitir NK var að ljúka við að landa 500 tonna farmi í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og var nánast allur aflinn makríll. Þetta var síðasta veiðiferð Beitis þar sem áhersla verður lögð á makrílveiðar. Börkur NK hélt til veiða í kvöld og mun væntanlega koma til löndunar á mánudag með um 300 tonn af makríl og verður þá makrílveiðum skipa Síldarvinnslunnar á yfirstandandi vertíð lokið. Makrílveiðar skipanna hafa gengið vel að undanförnu og hefur fiskurinn sem þau hafa borið að landi verið góður til vinnslu. 

Þegar makrílkvótanum er náð munu Börkur og Beitir leggja alla áherslu á síldveiðar en skipin eiga samtals eftir að veiða 11.500 tonn af norsk-íslenskri síld. Þriðja skipið sem landar afla til vinnslu í fiskiðjuverið, Bjarni Ólafsson AK, hefur að undanförnu veitt síld.

Um helgina mun starfsfólk fiskiðjuversins fá frí frá störfum.

Áfram koma vinnsluskip til Neskaupstaðar og landa frystum afurðum í frystigeymslur Síldarvinnslunnar. Vilhelm Þorsteinsson EA landaði 500 tonnum í gær en Kristina EA landar um 2000 tonnum í dag. Megnið af afla þeirra er síld. Hákon EA er síðan væntanlegur með 700 tonn á morgun. Afli hans er einnig mestmegnis síld.