Börkur NK bíður löndunar. Verið að landa úr Bjarna Ólafssyni AK. Ljósm: Smári Geirsson
Í morgun var lokið við að landa 1.400 tonnum af makríl úr Berki NK. Aflinn fékkst í Smugunni í tveimur holum og fór hann allur til manneldisvinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Nú er makrílvertíð að ljúka hjá skipum Síldarvinnslunnar en Beitir NK er þó enn að veiðum í Smugunni. Munu skipin nú snúa sér að síldveiðum og hefur Bjarni Ólafsson AK þegar hafið slíkar veiðar.
Heimasíðan hafði samband við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra á Berki og spurði hann hvað helst hefði einkennt makrílveiðarnar í ár. „Í fyrsta lagi þá byrjuðum við veiðarnar seinna en undanfarin ár og í öðru lagi virðist hafa verið minna af makríl hér við landið. Ástæða þess að makríllinn stoppaði lítið við landið er án efa sú að það var minna um átu hérna en verið hefur undanfarin ár. Veiðarnar þróuðust síðan þannig að þær fóru að miklu leyti fram í Síldarsmugunni, en veiðin var misjöfn frá einum tíma til annars. Stundum gekk vel að veiða en stundum þurfti líka að leita töluvert að fiskinum sem gat verið tímafrekt. Það er ekkert sem segir að makrílveiðin á næsta ári muni hafa þessi sömu einkenni. Í ár voraði seint í sjónum sunnan við landið þar sem gönguleið makrílsins er og því varð átumyndun lítil. Vonandi verður þetta með allt öðrum hætti á næsta ári. Auðvitað eru menn bjartsýnir eins og alltaf,“ segir Hjörvar.