Gert er ráð fyrir að makrílvertíð hjá Síldarvinnslunni hefjist 1. júlí. Makrílvertíðin skiptir fyrirtækið miklu máli og mikilvægi makrílsins hefur aukist eftir að loðnan hætti að veiðast, en nú hafa loðnuveiðar brugðist í tvö ár í röð. Hjá fyrirtækinu er unnið af kappi við að undirbúa vertíðina og um þessar mundir er verið að koma upp nýjum búnaði í fiskiðjuverinu í Neskaupstað sem mun gera Síldarvinnsluna enn frekar en áður hæfa til að skapa mikil verðmæti úr hráefninu.
                                                          
Fyrst vart við makríl 2006
 
Beitir NK að dæla makríl. Ljósm. Heimir Svanur HaraldssonBeitir NK að dæla makríl. Ljósm. Heimir Svanur HaraldssonÞað var árið 2006 sem makríll fór að veiðast sem meðafli í síldveiðum í flotvörpu austur af landinu og veiddust þá um 4.000 tonn. Árið eftir hófust beinar makrílveiðar og bárust þá 37.000 tonn á land. Fyrir lá að makríll hafði gengið í íslenska lögsögu í verulegum mæli og töldu menn mikilvægt að nýta þessa nýju auðlind og sýna með skýrum hætti að göngumynstur makrílsins væri að taka breytingum. Frá árinu 2008 til 2011 jókst makrílaflinn við Ísland úr 113.000 tonnum í 159.000 tonn og við blasti sú staðreynd að ný fisktegund var farin að skipta verulegu máli fyrir mörg sjávarútvegsfyrirtæki og þjóðarbúið allt. Á árinu 2012 fiskuðu íslensk skip rúmlega 149.000 tonn af makríl og árið 2013 ákváðu íslensk stjórnvöld makrílkvóta sem nam 120.000 tonnum en veitt var með sóknarmarksfyrirkomulagi.
 
Helstu veiðisvæði makrílflotans á Íslandsmiðum framan af voru á austur- og suðausturmiðum en síðan jókst aflinn á vesturmiðum árið 2010 og frá þeim tíma hefur makrílveiðin verið stunduð á öllum þessum miðum. Forsendan fyrir því að makríll hóf að ganga á Íslandsmið í ríkum mæli var hlýnun sjávar og með áframhaldandi hlýnun bendir flest til þess að hann sé kominn til að vera. Eins getur skýringin á makrílgöngunum verið minnkandi fæðuframboð á hefðbundnum ætisslóðum. Makríllinn gengur inn í lögsöguna á sumrin og er þar fram á haust og veiðar hafa einkum farið fram á tímabilinu júní-september.
     
Makríllinn hefur áður sýnt sig tímabundið
 
Þegar vart varð við makríl á Íslandsmiðum árið 2006 hafði hann ekki sýnt sig þar um áratuga skeið, en heimildir segja að hann hafi á hlýskeiðum fyrri ára gengið upp að Íslandsströndum í nokkrum mæli. Á síðasta áratug 19. aldar varð vart við makríl út af Vestur- og Norðurlandi og sumurin 1904 , 1906 og 1908 greina heimildir einnig frá makrílgöngum við landið. Eftir að hlýna tók í sjónum við landið árið 1926 gerði makríll sig heimakominn og árið 1928 veiddist makríll fyrir norðan land og austur af landinu árið 1930. Við Suðurnes veiddist makríll árið 1934 og árið 1938 í Miðnessjó og í Skerjafirði. Á lýðveldisárinu 1944 varð vart við verulega makrílgengd út af Vestfjörðum og Norðurlandi.
 
Á fyrri árum var makríll ekki veiddur með skipulögðum hætti heldur fékkst hann sem meðafli í síldarnætur og -net. Þegar hlýindaskeiðinu í hafinu, sem hófst árið 1926, lauk upp úr 1960 hættu makrílfréttir að berast. Hitinn í sjónum hélst tiltölulega lár fram undir árið 2000 að undanskildu stuttu hlýindaskeiði um 1970 en þá veiddu íslensk skip makríl í sáralitlum mæli. Rétt er að geta þess að á árunum 1967-1976 veiddu íslenskir síldarbátar makríl í Norðursjó og var þá nokkrum makrílförmum landað í Neskaupstað. Sumarið 1998 landaði einnig togarinn Sjóli frá Hafnarfirði nokkru magni af makríl í Neskaupstað og voru þá fyrst gerðar tilraunir til að frysta aflann en fram að því hafði makríllinn verið unninn í fiskimjölsverksmiðjunni.
                                                     
Makríllinn kom mönnum á óvart
 
Á Íslandsmiðum hefur makríll verið veiddur í flotvörpu en Börkur NK gerði tilraun til veiða í nót í september 2017. Á myndinni er Börkur með 540 tonna kast á síðunni. Ljósm. Hálfdan HálfdanarsonÁ Íslandsmiðum hefur makríll verið veiddur í flotvörpu en Börkur NK gerði tilraun til veiða í nót í september 2017. Á myndinni er Börkur með 540 tonna kast á síðunni.
Ljósm. Hálfdan Hálfdanarson
Þegar makríll hóf að veiðast við landið árið 2006 voru fyrirtækin óviðbúin að taka á móti honum og nýta hann nema þá til mjöl- og lýsisvinnslu. Sumarið 2008 hófu íslensk vinnsluskip að frysta makríl um borð en sumarið eftir hóf Síldarvinnslan tilraunir til að frysta makríl í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Þá hafði verið gefið út kvótaþak varðandi makrílveiðarnar en annars héldu þær áfram með sóknarmarksfyrirkomulagi. Fyrirtækið reyndist að mörgu leyti vanbúið til að frysta makrílinn, til dæmis má nefna að frystitækin hentuðu engan veginn til að frysta stærsta makrílinn.
 
Árið 2010 átti sér stað grundvallarbreyting hvað varðaði veiðar og vinnslu á makríl. Þá var gefinn út kvóti á hvert skip og eðlilega var þá lögð áhersla á að gera sem mest verðmæti úr þeim afla sem komið var með að landi. Afleiðing þessa var að áhersla á veiðar til manneldisvinnslu stórjókst og farið var fyrir alvöru að hyggja að fjárfestingum sem tengdust bæði skipum og vinnslubúnaði. Nauðsynlegt var að uppfæra vinnslurnar og fjárfesta í dýrum búnaði og eins þurfti að gera miklar  umbætur á skipum til að tryggja sem besta meðferð á aflanum. Þrátt fyrir að fyrirtæki hefðu sérhæft sig í vinnslu á uppsjávarfiski, bæði síld og loðnu, þá þurfti að ráðast í miklar viðbótarfjárfestingar svo unnt yrði að vinna makrílinn. Lauslega áætlað eru fjárfestingar Síldarvinnslunnar í skipum og vinnslum eftir tilkomu makrílsins um 10 milljarðar króna, en nývirði skipanna og vinnslunnar nemur um 30 milljörðum. Fyrir utan veiðar og vinnslu þurfti að leggja af mörkum mikla vinnu á sviði markaðsmála því koma þurfti framleiðslunni í verð og fá sem mest fyrir vöruna.
 
Frá árinu 2011 hefur nánast allur makríll sem Síldarvinnslan hefur tekið á móti farið til manneldisvinnslu.
 

Frá árinu 2011 hefur allur makríll farið til manneldisvinnsluFrá árinu 2011 hefur allur makríll farið til manneldisvinnsluFyrir fyrirtæki eins og Síldarvinnsluna hefur makríllinn haft gríðarleg áhrif. Rekstur uppsjávarskipa og fiskiðjuvers er mun tryggari eftir að makrílveiðar hófust og unnt er að starfrækja fiskiðjuverið með fullum afköstum yfir sumartímann. Fyrir starfsfólkið skiptir það miklu máli og reyndar fyrir samfélagið allt. Þá hafa vinnsluskip landað miklum makríl í Neskaupstað og er makríltíminn orðinn einn helsti annatími ársins í Norðfjarðarhöfn. 

 
Nú nálgast makrílvertíð ársins og eins og venjulega vakna ýmsar spurningar: Hvar kemur hann inn í lögsöguna ? Kemur hann í miklu magni ? Hvað mun hann staldra lengi við ?