
frystar afurðir. Beitir NK er að landa makríl og lengst til hægri bíður
Börkur NK löndunar. Ljósm. Smári GeirssonÍ Neskaupstað er makrílvertíðarstemning hafin fyrir alvöru. Veiðiskipin koma og fara og flutningaskip lestar afurðir. Það er líf og fjör í höfninni. Sum veiðiskipanna koma með frystar afurðir sem unnar eru um borð og fara þær í frystigeymslur Síldarvinnslunnar. Önnur skip koma með kældan ferskan makríl til vinnslu í fiskiðjuverinu en þar starfa um 100 manns á þrískiptum vöktum. Fiskimjölsverksmiðjan tekur síðan á móti afskurði og öllu því sem flokkast frá við manneldisvinnsluna, en það er sáralítill hluti þess afla sem á land kemur.
Bjarni Ólafsson AK kom með 160 tonn af makríl sl. föstudag og var sá afli nýttur til að prófa nýjan búnað í fiskiðjuverinu. Beitir NK kom síðan með 640 tonn í gær og þá hófst vinnsla af fullum krafti. Börkur NK kom síðan í morgun með rúmlega 600 tonn og bíður hann löndunar, en Bjarni Ólafsson er á miðunum. Venjulega gengur vertíðin svona fyrir sig; þess er ávallt gætt að nægur afli sé fyrir samfellda vinnslu og öll áhersla lögð á að hann sé nýveiddur og vel kældur. Gæði hráefnisins er það sem öllu máli skiptir.
Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóri á Berki sagði að afli skipsins hefði fengist í fjórum stuttum holum ofarlega í Lónsdýpinu. „Það var töluvert að sjá þarna í gærkvöldi og ég held að bátarnir sem voru þarna hafi verið að fá þokkalegan afla. Það var hins vegar lítið að sjá fyrri partinn í gær. Löndun mun hefjast hjá okkur síðdegis en þá verður lokið við að landa úr Beiti,“ sagði Hálfdan.