Makrílvertíð í fullum gangi. Ljósm: Sigurður Steinn Einarsson
Að undanförnu hafa makrílveiðar gengið vel hjá skipum sem landa í Neskaupstað og vinnslan hefur sömuleiðis gengið með ágætum. Aflinn sem berst að landi er dálítið síldarblandaður en fiskurinn verður betra hráefni eftir því sem á líður. Afli Beitis, Barkar og Bjarna Ólafssonar er unnin í fiskiðjuverinu en að auki hafa vinnsluskipin Vilhelm Þorsteinsson og Kristina landað frystum afurðum í frystigeymslurnar. Frystitogarinn Barði lagði stund á makrílveiðar í júlímánuði og fór í þrjá fullfermistúra. Ísfisktogarinn Bjartur er að halda í sinn fjórða makrílveiðitúr og er hann jafnframt lokatúr skipsins á þeim veiðum. Bjartur hefur landað sínum afla til vinnslu í fiskiðjuverinu.

                Útskipanir á makríl eru hafnar af fullum krafti. Í dag er verið að skipa út 3500 tonnum sem fara til Nígeríu og í næstu viku koma tvö skip. Annað mun lesta 5000 tonn sem einnig fara til Afríku og hitt 1500 tonn sem fara til Portúgal. Þannig að alls verður skipað út 10.000 tonnum á einni viku. „Það er mikið að gera núna,“ sagði Heimir Ásgeirsson yfirverkstjóri í frystigeymslunum, „fyrir utan þessi 10.000 tonn sem eru að fara frá okkur á nokkrum dögum munu vinnsluskipin Kristina og Vilhelm Þorsteinsson koma til löndunar eftir helgi. Þetta er eins og það á að vera,“ sagði Heimir að lokum.