Til Neskaupstaðar koma makrílskipin hvert af öðru og þar er samfelld vinnsla. Til að afla upplýsinga um nýbyrjaða vertíð ræddi heimasíðan við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra á Berki. Börkur er að landa 1.500 tonnum og mun halda á ný til veiða í nótt eða strax að löndun lokinni.
Hvernig líst þér á upphaf vertíðar?
Mér líst bara vel á. Vertíðin byrjar af ágætum krafti en hins vegar mætti meira hafa veiðst innan íslenskrar lögsögu. Einhverjar fréttir hafa borist um vaðandi fisk suðaustur af landinu og vonandi er þar um makríl að ræða. Það þarf nauðsynlega að skoða. Við höfum mest verið að veiða í Smugunni og höfum farið allt upp í 380 mílur frá landinu. Þá vorum við alveg við Jan Mayen línuna. Fiskurinn í Smugunni hefur verið á norðurleið í ætisleit. Þá má ekki gleyma því að veður hefur verið hagstætt hingað til.
Hvernig gekk síðasta veiðiferð?
Hún gekk afar vel. Við fengum 1.500 tonn á 40 tímum. Aflinn fékkst í 6 holum og það var dregið frá tæpum þremur tímum og upp í sex. Skipin, sem landa hjá Síldarvinnslunni, hafa samstarf um veiðarnar en í þessari veiðiferð vorum við einir á miðunum og því var allur aflinn okkar eigin.
Ef við berum upphaf vertíðarinnar saman við upphaf vertíðar í fyrra, hver er þá munurinn?
Aflinn er mun meiri núna. Við á Berki erum líklega búnir að fiska helmingi meira en á sama tíma í fyrra. Á móti kemur hins vegar að meira veiddist innan íslenskrar lögsögu í upphafi vertíðarinnar í fyrra.
Hvernig hefur fiskurinn verið?
Makríllinn sem veiðst hefur að undanförnu hefur verið stór. Það var hins vegar töluverð áta í honum í upphafi sem var að gera mönnum lífið leitt. Það er hins vegar miklu minni áta í þessum farmi sem verið er að landa núna. Nú er til dæmis unnt að heilfrysta verulegan hluta aflans en áður þurfti að hausskera allan fisk.
Ertu bjartsýnn á framhaldið?
Já, það er ekki hægt að vera annað en bjartsýnn. Það hefur áfram verið þokkaleg veiði og Vilhelm Þorsteinsson er á leiðinni til Neskaupstaðar núna með 800-900 tonn. Þá er nýi Börkur að reynast afskaplega vel. Þetta skip er alger sparibaukur – frábært að veiða á það og sparneytnara en önnur skip sem maður hefur kynnst. Það er ekki unnt að vera annað en bjartsýnn með svona skip í höndunum.