Jón Gunnar Sigurjónsson, yfirverkstjóri í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar, segir að vinnslan á makrílvertíðinni hafi farið vel af stað. „Það gekk bara vel að starta þessu hjá okkur. Börkur kom í gær með 750 tonn og við lukum við að vinna úr honum í morgun. Nú er verið að þrífa húsið, en Vilhelm Þorsteinsson er væntanlegur með rúm 1000 tonn núna klukkan þrjú. Fiskurinn er hefðbundinn Smugufiskur eins og hann er á þessum árstíma. Við byrjum vertíðina á tvískiptum vöktum en nú er að bætast í mannskapinn og eftir helgina verða þrískiptar vaktir. Það er bara vonandi að veiðin gangi vel svo vinnslan geti verið sem samfelldust,“ segir Jón Gunnar.
Tvö Síldarvinnsluskipanna, Beitir NK og Barði NK, eru að veiðum í Smugunni þegar þetta er ritað.